Innlent

Umferðarsektir hækka á morgun

Á morgun hækka sektir vegna umferðarlagabrota og geta orðið allt að 300 þúsund krónum.
Á morgun hækka sektir vegna umferðarlagabrota og geta orðið allt að 300 þúsund krónum.

Sektir vegna umferðarlagabrota hækka umtalsvert á morgun. Sektirnar geta numið allt að 300 þúsund krónum sé ekið á meira en 170 km hraða. Þá varða viðurlög á brotum á reglum um aksturs- og hvíldartíma nú sekt og punkti eða punktum í ökuferilsskrá.

William Thomas Möller, lögfræðingur hjá Umferðarstofu, fagnar þessum breytingum og segir hækkunum ætlað að ná árangri í því að slá á brotafjölda. „Þegar aðgerðir sem þessar eru gerðar er ekki síður mikilvægt að lögreglan haldi vöku sinni yfir umferðalagabrotum því bestur árangur næst ef allir vinna saman.“

Sem dæmi um sektir vegna aksturs yfir löglegum hámarkshraða má nefna að sé ekið á 46-50 km hraða þar sem hámarkshraði er 30 km skal sektin vera 15 þúsund krónur en 50 þúsund sé ekið á 71-75 km hraða þar sem hámarkshraði er 30 km. Fyrir slík brot skal ökumaður jafnframt sviptur ökuleyfi í þrjá mánuði.

Sé ekið á 101-110 km hraða þar sem hámarkshraði er 90 km skal sektarfjárhæð vera 15 þúsund krónur, 60 þúsund krónur ef hraðinn er á milli 131-140 km og beita skal 110 þúsund króna sekt og þriggja mánaða ökuleyfissviptingu sé ökuhraðinn orðinn 161-170 km þar sem hámarkshraðinn er 90 km.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×