Innlent

Brottkast eykst


Brottkast eykst milli ára en er þó talið vera langt frá því sem var áður en brottkast var gert ólöglegt.
Fréttablaðið/Óþekktur ljósmyndari
Brottkast eykst milli ára en er þó talið vera langt frá því sem var áður en brottkast var gert ólöglegt. Fréttablaðið/Óþekktur ljósmyndari Óþekktur ljósmyndari

Brottkast þorsks, ýsu, ufsa og gullkarfa tvöfaldaðist á milli áranna 2004 og 2005, samkvæmt nýrri skýrslu, sem birt er á vefsíðu Hafrannsóknastofnunar.

Brottkast þorsks var 2.594 tonn í fyrra eða 1,27 prósent af lönduðum afla. Meiri athygli vekur að brottkast ýsu var 4.871 tonn árið 2005, eða 5,24 prósent af heildarafla. Þetta er talsvert hærra hlutfall en var árið 2004, þegar það mældist 3,1 prósent. Í tonnum talið er þetta mesta brottkast ýsu síðan árið 2001.

Ólafur K. Pálsson, fiskifræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, kom að gerð skýrslunnar. Hann segir að skýringu á auknu brottkasti ýsu megi finna í því að árið 2005 hafi ýsukvóti verið um það bil tvöfalt meiri en tveimur árum áður, einnig að nú veiðist meira af smáfiski. Því megi segja að þróunin síðustu tvö ár hafi verið óhagstæð. Hins vegar hafi umgengni manna við auðlindina breyst heilmikið til hins betra til lengri tíma séð.

"Þetta er auðvitað ekki sú þróun sem við viljum sjá, að brottkast aukist. Við teljum þó að þetta sé ekki eins slæmt og var hér á árum áður, til dæmis á síðasta áratug, eða fyrir tuttugu árum síðan. Þá var mun meira um brottkast, enda var það ekki ólöglegt þá."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×