Erlent

Bolur til loftgítarspils

Ástralskur vísindamaður hefur búið til þarfaþing fyrir þá sem hafa gaman af því að leika á loftgítar. Um er að ræða bol sem þarf að smeygja sér í áður en framkallaðir eru fagrir tónar.

Verkfræðingurinn Richard Helmer fór fyrir hópi vísindamanna og sérfræðinga frá opinberri stofnun í Ástralíu sem tók það upp hjá sér að hanna hjálpartæki loftgítarmeistara. Um er að ræða stuttermabol sem fara þarf í þegar sýna á listir sínar. Önnur höndin er notuð til að pikka á strengi ímyndaða gítarsins á meðan hin er notuð til að glamra á hann.

Helmer segir nema komið fyrir í ermum bolsins. Þeir nemi hreyfingar og tengist við smákubb sem framleiði hljóma. Hann segir einu gilda hvort þeir sem noti bolinn séu rétt- eða örvhentir.

Samkvæmt þessu geta þeir sem áður hafa leikið á loftgítar tekið gleði sína. Næsta stóra keppni í loftgítarleik verður væntanlega áhugaverð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×