Innlent

Björgólfur Thor kemur hvergi nærri tilboðinu í West Ham

Eggert Magnússon
Eggert Magnússon

Björgólfur Thor Björgólfsson er á engan hátt tengdur tilboði Eggerts Magnússonar, formanns KSÍ, í breska knattspyrnufélagið West Ham. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem gefin var í Bretlandi þar sem segir að hvorki Björgólfur, persónulega, né fjárfestingafyrirtæki hans Novator, eigi þar nokkurn hlut að máli.

Eggert virðist engu að síður hafa öfluga aðila að baki sér við tilboðið í West Ham. Bæði hvað varðar fjármagn og sérfræðiþekkingu við að ganga frá svona kaupum.

Dregið er í efa að Eggert eigi sjálfur þær 40 milljónir sterlingspunda, eða rúmlega fimm milljarða króna sem bresk blöð segja að hann muni sjálfur leggja fram. Breska blaðið The Guardian segir að á bakvið hann standi norrænn bankamaður sem eigi persónulegar eignir upp á 500 milljónir sterlingspunda eða 64 milljarða króna.

The Guardian segir að stjórn West Ham hafi af því nokkrar áhyggjur að kaupin verði fjármögnuð lánsfé, enda sé félagið mikið skuldsett fyrir. Þar hefur Eggert hinsvegar á bak við sig Keith Harris, fyrrverandi formann Breska knattspyrnusambandsins, sem mun sjá um yfirtökutilboðið, ef af því verður.

Harris hafði milligöngu við kaupin á bæði Soutthampton og Aston Villa og telur Guardian að hann geti sefað ótta stjórnarmanna West Ham. Guardian bendir einnig á að Eggert Magnússon muni færa West Ham gríðarmikil tengsl í knattspyrnuheiminum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×