Innlent

Afli meiri í upphafi nýs fiskveiðiárs en í fyrra

Nýtt fiskveiðiár virðist hefjast ágætlega því aflinn í nýliðnum september var um 86.500 tonn sem er tæplega 22 þúsund tonnum meiri en í sama mánuði í fyrra. Þetta sýna nýjar tölur Fiskistofu.

Fram kemur í tilkynningu frá stofnuninni að þar muni mest um aukinn afla norsk-íslensku síldarinnar í ár. Ívið minna veiddist af flestum botnfisktegundum í nýliðnum september en árið áður að undanskildum karfa

Heildarafli ársins 2006 var í lok september kominn í 1.054.542 tonn en það er fjórðungi minni afli en á sama tíma í fyrra. Samdráttur í afla milli ára stafar af minni loðnuafla í ár. Afli botnfisktegunda og afli annarra uppsjávartegunda er áþekkur það sem af er ári og var fyrstu níu mánuði ársins 2005.

Fiskveiðiár nær yfir tímabilið 1. september til 31. ágúst næsta ár og úthlutað aflamark nýhafins fiskveiðiárs er í megindráttum svipað og í upphafi síðasta fiskveiðiárs að því er fram kemur í tilkynningu Fiskistofu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×