Hugbúnaðarfyrirtækið TM Software hefur ákveðið að styrkja Ljósið, endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir þá sem greinst hafa með krabbamein og aðstandendur þeirra. Stuðningurinn felst í að veita Ljósinu afnot af sjúkraskrárkerfinu Sögu, sem Ljósið fær aðgang að í gegnum iCura-kerfisveitu.
Í tilkynningu frá TM Software segir að umsjónarmenn Ljóssins geti skráð námskeið, fræðslutíma og sjúkrasögu allra sem sækja miðstöðina í sjúkraskrárkerfið Sögu. Með iCura-kerfisveitu fær Ljósið aðgang að Sögu yfir Netið og þarf því ekki að setja upp aukavélbúnað til að keyra sjúkrakerfið. iCura-kerfisveitan fylgir ströngustu öryggiskröfum og tryggir það öruggan rekstur, afritunartöku, eftirlit og viðhald, að því er segir í tilkynningunni.
Erna Magnúsdóttir, yfirumsjónarmaður Ljóssins, segir þetta ómetanlegt og hafa mikla hagræðingu í för með sér. Kostur sé að geta fengið kerfi eins og Sögu í gegnum kerfisveitu og þannig nýtt áfram þann tölvukost sem fyrir var í miðstöðinni en kerfisveitan gerir notendum kleift að tengjast sjúkraskránni utan starfsstöðvar Ljóssins og tryggir það sveigjanleika í skráningu og eftirliti, að því segir í tilkynningunni.