Erlent

Skammdegisþunglyndi er mýta

Dimmasti tími ársins Skammdegisþunglyndi er bara mýta, kemur fram í nýrri evrópskri rannsókn.
Dimmasti tími ársins Skammdegisþunglyndi er bara mýta, kemur fram í nýrri evrópskri rannsókn.

Skammdegisþunglyndi sem stafar af ljósskorti er bara mýta sem fundin var upp í Bandaríkjunum árið 1984, er niðurstaða tveggja vísindamanna frá Noregi og Ítalíu.

Vidje Hansen, sálfræðiprófessor við háskólann í Tromsø, og Greta Brancaleoni, ítalskur kollegi hans, tóku sig saman og mældu skapsveiflur íbúa Tromsø og Ferrara á Ítalíu í nóvembermánuði. Fyrrnefndi bærinn er á 69. breiddargráðu en sá síðarnefndi á 44. breiddargráðu svo munurinn á birtunni þar á veturna er mikill og var nóvember valinn því samkvæmt skoðanakönnunum telja bæði Norðmenn og Ítalir hann vera erfiðasta mánuðinn.

„Við uppgötvuðum að skap- og hegðunarsveiflur tengdust veðrinu almennt en ekki skorti á dagsbirtu. Þar fyrir utan uppgötvuðum við að Ítölunum fannst nóvember enn erfiðari en okkur Norðmönnum, en þegar komið er fram í desember, sem er virkilega dimmur, sögðu bæði Ítalar og Norðmenn að þeim líkaði sá mánuður vel. Þetta sýnir að það hriktir í stoðum fyrirbærisins skammdegisþunglyndi,“ sagði Hansen í samtali við fréttamenn norska blaðsins Aftenposten.

Árið 1984 stungu bandarískir vísindamenn upp á því að vetrarþunglyndi stafaði af skorti á dagsljósi, en því lengra norður sem farið er á hnettinum þeim mun fleiri þjást af þessu árstíðabundna þunglyndi.

En Hansen telur veðrið hafa meira með dapurleika og orkuleysi á veturna að gera heldur en ljósið, einkum vegna þess að mörgum Tromsø-búum finnst maí vera einn versti mánuðurinn.

„Þetta segir mér að væntingar breyta öllu um það hvernig fólk upplifir veður. Í Norður-Noregi er maður óánægðari með slæmt sumar en slæman vetur,“ sagði Hansen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×