Ný Blue Lagoon verslun var formlega opnuð í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á fimmtudaginn var. Í fréttatilkynningu frá félaginu segir að í versluninni séu Blue Lagoon húðvörur fáanlegar og boðið sé upp á orkumeðferðir á spa-svæði verslunarinnar. Spa svæði sem þessi sé að finna í mörgum helstu flugstöðvum heims og njóti þessi þjónusta aukinna vinsælda.
Í tilkynningunni er haft eftir Önnu G. Sverrisdóttur, framkvæmdastjóra Bláa Lónsins hf., að opnun verslunarinnar sé ánægjulegt skref fyrir Bláa lónið hf. "Í starfsemi okkar leggjum við áherslu á nýsköpun og þróun. Verslunin og spa meðferðir í flugstöðinni er þjónusta sem okkur þykir sérstaklega ánægjulegt að geta veitt bæði íslenskum og erlendum farþegum sem eiga leið um flugstöðina."