Viðskipti innlent

Ágæt afkoma Alfesca

Xavier Govare, forstjóri Alfesca
Rekstrarafkoma Alfesca á síðasta ársfjórðungi var ágæt, þrátt fyrir erfiðar markaðsaðstæður.
Xavier Govare, forstjóri Alfesca Rekstrarafkoma Alfesca á síðasta ársfjórðungi var ágæt, þrátt fyrir erfiðar markaðsaðstæður.

Alfesca tapaði 603 þúsundum evra, sem nemur um 58,5 milljónum íslenskra króna, á síðasta fjórðungi fjárhagsársins, sem lauk þann 30. júní. Var tapið nokkuð minna en greiningardeildir bankanna gerðu ráð fyrir, en þær spáðu 46 til 243 milljóna króna tapi á ársfjórðungnum.

Hagnaður félagsins fyrir fjárhagsárið í heild nam 11.966 þúsund evrum, eða um 1,16 milljörðum króna. Rekstrarhagnaður af reglulegri starfsemi félagsins fyrir afskriftir (EBITDA) á fjórða ársfjórðungi nam 6,4 milljónum evra, eða um 620 milljónum króna. Sala á fjórðungnum nam 115,9 milljónum evra, sem er sextán prósenta aukning frá því árið á undan.

Í fréttatilkynningu Alfesca til Kauphallar Íslands segir að þrátt fyrir erfiðar markaðsaðstæður sé rekstrarafkoman góð, sem skýrist meðal annars af öflugum innri vexti og aukinni skilvirkni í helstu framleiðsluþáttum félagsins. Hráefnisverð á laxi hafi náð hámarki í lok júní en verð hafi lækkað hratt að undanförnu, sem séu góðar fréttir fyrir komandi jólasölu Alfesca.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×