Sport

San Antonio vann toppslaginn

Tim Duncan og félagar sýndu að þeir eru ennþá með besta liðið í Vesturdeildinni í nótt
Tim Duncan og félagar sýndu að þeir eru ennþá með besta liðið í Vesturdeildinni í nótt NordicPhotos/GettyImages

Meistarar San Antonio Spurs sýndu að þeir eru ekki dauðir úr öllum æðum í nótt þegar liðið skellti heitasta liði deildarinnar Dallas Mavericks í uppgjöri tveggja efstu liða Vesturdeildarinnar 98-89 á heimavelli sínum. Liðin eru nú hnífjöfn á toppi deildarinnar með 45 sigra og 12 töp.

Fyrrum leikmaður Dallas, Michael Finley, skoraði 11 af 15 stigum sínum í fjórða leikhlutanum þar sem San Antonio varðist áhlaupi Dallas. Finley er enn á himinháum launum hjá Dallas, sem lét hann fara eftir síðasta tímabil.

Tony Parker skoraði 23 stig fyrir San Antonio og Tim Duncan 15, en þeir Dirk Nowitzki og Jerry Stackhouse skoruðu 23 stig hvor fyrir Dallas. Liðin eru nú með nákvæmlega eins vinningshlutfall í deildinni, en San Antonio hefur unnið tvo af þremur leikjum liðanna í vetur.

Þá vann Cleveland mikilvægan sigur á Chicago Bulls á útivelli 92-91 og afstýrði þar með sjötta tapi sínu í röð. LeBron James skoraði 33 stig, hirti 11 fráköst og gaf 8 stoðsendingar fyrir Cleveland, en Kirk Hinrich skoraði 25 stig og hirti 9 fráköst hjá Chicago.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×