Viðskipti innlent

Hagnaður Sparisjóðs Vestmannaeyja rúmar 180 milljónir

Frá Vestmannaeyjum.
Frá Vestmannaeyjum. Mynd/Vísir

Hagnaður Sparisjóðs Vestmannaeyja nam 180,4 milljónum króna á síðasta ári. Heildarrekstrartekjur námu 789,2 milljónum króna og gjöld námu 570,6 milljónum króna að meðtöldum afskriftum. Reksturinn gekk vel á árinu, að því er fram kemur í tilkynningu frá Sparisjóði Vestmannaeyja.

Hagnaður fyrir skatta nam 218,6 milljónum króna.

Þá kemur fram að hefðbundin bankastarfsemi hafi skilað minni hagnaði á síðasta ári en árið 2004. Hins vegar hafi gengismunur verðbréfaeignar aukist á milli ára.

Bókfært eigið fé Sparisjóðsins nam 935 milljónum króna í árslok og er það 29,3 prósenta hækkun frá 2004. Þá hækkaði niðurstaða efnahagsreiknings um 6,1 milljarð króna og er það 17,6 prósenta hækkun á milli ára.

Heildarútlán Sparisjóðsins að meðtöldum fullnustueignum námu í lok síðasta árs 4.112,9 milljónum króna og er það 25,9 prósenta hækkun frá 2004. Stærstu útlánaflokkarnir voru til einstaklinga og íbúðalán eða rúm 73 prósent. Lán til sjávarútvegs námu hins vegar 11,7 prósentum í árslok. Lán til verslunar, þjónustu- og annarrar atvinnustarfsemi námu 12,9 prósentum en lán til ríkis og bæjarfélaga voru 2,1 prósent. Hlutfallslega hækkuðu íbúðalán til einstaklinga mest, að því er fram kemur í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×