Innlent

Einn stórslasaður á gjörgæslu

 Árekstur tveggja varð við bæinn Breiðumýri í Reykjadal um 30 kílómetra frá Húsavík klukkan rúmlega sjö á föstudagskvöldið. Annar ökumaðurinn, sautján ára gamall piltur, var fastur í öðrum bílnum og var kallað á Slökkviliðið á Akureyri til að ná honum út úr flakinu. Manninum var náð út með klippum.

Hann var fluttur alvarlega slasaður áleiðis til Akureyrar í sjúkrabíl. Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LIF, var kölluð út og mætti hún sjúkrabílnum við Stórutjarnir, sem eru 50 kílómetra frá Húsavík og 45 kílómetra frá Akureyri, og flaug með manninn á gjörgæsludeild Landspítala - háskólasjúkrahúss í Fossvogi. Að sögn svæfingalæknis á gjörgæsludeild var maðurinn í aðgerðum aðfaranótt laugardagsins og er hann stórslasaður.

Tvær konur voru í hinum bílnum og voru þær fluttar á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Meiðsli þeirra voru ekki alvarleg að sögn læknis og voru þær útskrifaðar af spítalanum á föstudagskvöldið.

Að sögn Lögreglunnar á Húsavík liggja tildrög slyssins ekki ljós fyrir en svo virðist sem nokkur snjókoma hafi verið og töluverð hálka á veginum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×