Innlent

Mest kvartað yfir háu verðlagi

samgönguráðherra Sturla sagði ánægjulegt hve greinin hefði vaxið og aflaði hún nú um tólf prósent af gjaldeyristekjum Íslands.
samgönguráðherra Sturla sagði ánægjulegt hve greinin hefði vaxið og aflaði hún nú um tólf prósent af gjaldeyristekjum Íslands. MYND/Rósa

Ferðamenn á Íslandi eru helst ósáttir við verðlag hérlendis samkvæmt könnunum sem kynntar voru á Ferðamálaráðstefnu 2006 á fimmtudag. Á það bæði við um íslenska og erlenda ferðamenn. Ferðamálastofa lét gera viðhorfskönnun meðal íslenskra ferðamanna hérlendis og Samtök ferðaþjónustunnar könnuðu álit erlendra ferðamanna á gæðum íslenskrar ferðaþjónustu.

Hæst þótti erlendum ferðamönnum verðlag víns á veitingastöðum en rúm 92 prósent þeirra töldu það mjög hátt eða fremur hátt miðað við gæði. Næst kom matur á veitingahúsum en 89 prósent töldu verð á honum mjög hátt eða fremur hátt.

Íslenskir ferðamenn voru beðnir um að gefa ýmsum þáttum einkunn á bilinu núll til tíu. Lægstu einkunn fékk verðlagning innanlandsflugs eða 2,9. Hæstu einkunnina fékk ástand bílaleigubíla, eða 8,5. Meðaleinkunn allra þátta að verðlagi undanskildu var 6,6. Meðaleinkunn verðlags var 4,8.

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra segir ferðamálaáætlun Ferðamálastofu ganga vel en greinin þurfi að taka sig á í gæðamálum. „Lækkun virðisaukaskatts og matarverðs er ein allra mikilvægasta markaðsaðgerðin til lækkunar verðs á þjónustu greinarinnar meðal annars gagnvart erlendum ferðamönnum. Ég held að þessi könnun sanni að það er rétt ákvörðun gagnvart greininni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×