Sport

Mikilvægasti grannaslagur Arsenal og Tottenham til þessa

Framherjinn Mido tekur hér hraustlega á Freddy Ljungberg í fyrri leik liðanna á White Hart Lane í vetur, en fastlega má búast við enn meiri hita í leiknum á morgun
Framherjinn Mido tekur hér hraustlega á Freddy Ljungberg í fyrri leik liðanna á White Hart Lane í vetur, en fastlega má búast við enn meiri hita í leiknum á morgun AFP

Ian Wright, fyrrum framherji Arsenal, segir að grannaslagur erkifjendanna Arsenal og Tottenham í Norður-Lundúnum á morgun, sé stærsti og mikilvægasti leikur liðanna til þessa. Liðin mætast í síðasta skipti á Highbury á morgun í leik sem fer langt með að skera úr um hvort liðið hreppir sæti í Meistaradeildinni á næsta tímabili.

"Leikirnir verða ekki stærri en þessi, því sæti í Meistaradeildinni er undir og næstu fjórir dagar ráða gríðarlega miklu um framtíð Arsenal. Þetta er í mínum huga stærsti grannaslagur liðanna til þessa," sagði Wright og Gary Mabbutt, fyrrum varnarmaður Tottenham tekur í sama streng.

"Þetta er sannarlega mikilvægasti leikur Tottenham í mjög langan tíma og líklega einn mikilvægasti leikurinn í sögu félagsins. Það er kannski djúpt tekið í árina að segja það - en félagið stendur á tímamótum. Tottenham hefur ekki verið nálægt því að komast í Meistaradeildina á síðustu árum, en ef það tekst nú, er framtíðin björt og möguleikarnir meiri á auknum tekjum og betri leikmönnum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×