Innlent

Hlaut fjóra dóma á tveimur árum

Héraðsdómur staðfesti úrskurð um að vísa manninum úr landi og meina honum um endurkomu í 10 ár.
Héraðsdómur staðfesti úrskurð um að vísa manninum úr landi og meina honum um endurkomu í 10 ár.

Íslenska ríkið var í gær sýknað af kröfum rúmlega tvítugs manns frá Víetnam sem hafði krafist þess að úrskurður dómsmálaráðuneytis um að vísa honum úr landi yrði ógiltur. Maðurinn hafði komið hingað til lands með móður sinni fyrir fimm árum, þegar hann var 16 ára.

Á tveimur árum hlaut hann fjóra refsidóma, meðal annars fyrir kynferðisbrot gegn barni, stórfellda líkamsárás og þjófnað. Vegna þeirra dóma sat maðurinn í fangelsi í rúmt ár en var sleppt í ágúst 2004 eftir helming afplánunar sökum ungs aldurs.

Útlendingastofnun tók ákvörðun um að vísa manninum úr landi skömmu síðar auk þess sem honum var bönnuð endurkoma til Íslands í tíu ár. Dómsmálaráðuneytið staðfesti þann úrskurð og var manninum tilkynnt um þær málalyktir í janúar 2005. Hann taldi úrskurðinn brjóta stjórnsýslulög þar sem andmæla- og rannsóknarreglur hefðu verið brotnar. Einnig hélt hann því fram að hvorki hefði verið tekið tillit til þess að hann hefði ekki náð fullorðinsaldri þegar brotin voru framin né að hann hefði ekki að neinu að hverfa í Víetnam þar sem öll hans nánasta fjölskylda byggi hér á landi. Héraðsdómur Reykjavíkur félst ekki á kröfu mannsins og því stendur úrskurður dómsmálaráðuneytisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×