Fótbolti

Inter fær ekki aðstoð frá dómurum

Roberto Mancini hlær að sögusögnum á Ítalíu.
Roberto Mancini hlær að sögusögnum á Ítalíu. MYND/AFP

Roberto Mancini, þjálfari Inter á Ítalíu, hlær að öllum samsæriskenningum þess efnis að leikmenn liðsins njóti friðhelgi hjá dómurum deildarinnar. Nokkur umræða hefur verið á Ítalíu þess efnis að Inter sé í náðinni hjá hinum ýmsu dómurum, einhverra hluta vegna.

"Svona sögur fá mig til að hlæja. Það er náttúrulega ekkert til í þessu. Við höfum ekkert forskot á aðra og við kærum okkur ekki um slíka aðstoð frá dómurum eða nokkrum öðrum," sagði Mancini á blaðamannafundi í gær og benti máli sínu til stuðnings á að leikmenn liðsins hefðu fengið fjögur rauð spjöld það sem af er leiktíð, auk þess sem fjórum sinnum hefði verið dæmt vítaspyrna á liðið.

Inter getur jafnað með í ítölsku úrvalsdeildinni með sigri á Atlanta í kvöld, en þá mun liðið hafa náð að sigra í 11 leikjum í röð.

Zlatan Ibrahimovic og Marco Materazzi eru í leikbanni og þá verða Ivan Cordoba, Fabio Grosso, Francesco Coco, Walter Samuel, Olivier Dacourt og Julio Cruz ekki með vegna meiðsla. "Við eigum erfitt með að stilla upp liði en okkur langar að slá þetta met og ég er nokkuð sigurviss," sagði Mancini.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×