Innlent

Stefna í fremstu röð í fiskeldi

Fiskeldi Samherja í Mjóafirði.
Fiskeldi Samherja í Mjóafirði. MYND/Elma

Samherji ætlar sér að verða í fremstu röð í lúðueldi og þorskeldi og setur stefnuna á að ná meira en helmings markaðshlutdeild í eldisbleikju. Þessu greindi forstjóri Samherja frá þegar tilkynnt var um stuðning stjórnvalda við fiskeldi í dag.

Landbúnaðarráðherra og sjávarútvegsráðherra, ásamt fulltrúa iðnaðarráðuneytis, kynntu í dag áform um stuðning við fiskeldi á næstu árum. Tuttugu og fimm milljónir króna verða lagðar árlega í kynbótaverkefni í fiskeldi og þrjátíu milljónir króna verða lagðar í markaðs- og sölustarf næstu þrjú árin. Auk þess reyna stjórnvöld að tryggja að raforkuverð til fyrirtækja í fiskeldi hækki ekki næstu árin.

Rekstur fiskeldisfyrirtækja hefur verið erfiður síðustu ár og hefur dregið úr starfseminni hérlendis. Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja segir aðgerðirnar nú styrkja stöðu fiskeldis og að ekki verði dregið jafn mikið úr fiskeldi og áður hafði verið ákveðið.

"Við teljum að Samherji geti orðið fremstur í heiminum í eldi á bleikju og framhaldseldi á lúðu, og við ætlum að vera jafnfætis þeim bestu í þorskeldi," segir Þorsteinn Már.

Dr. Jónas Jónasson, framkvæmdastjóri Stofnfisks, segir þær aðgerðir sem nú eru kynntar grundvöll að frekara rannsóknastarfi sem sé nauðsynlegt ef menn ætla sér að reka fiskeldi með arðbærum hætti í framtíðinni. Hann segir að árangurinn af fiskeldinu sé all nokkur. "Það er komið í ljós að það er hægt að ala þorsk upp í þær stærðir sem við viljum. Það tekur bara tíma og við þurfum að stytta þann tíma til að verða samkeppnisfærir í framleiðslukostnaði."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×