Innlent

Meirihlutinn á Akureyri fallinn skv. skoðanakönnun

Meirihluti Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar á Akureyri er fallinn samkvæmt skoðanakönnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands hefur gert fyrir NFS. Sjálfstæðismenn halda sínu fylgi en Framsóknarflokkurinn tapar hins vegar rúmum þriðjungi af fylgi sínu.

Félagsvísindastofnun gerði könnunina dagana 10.-12. apríl síðastliðinn á Akureyri vegna bæjarstjórnarkosninganna sem fram fara í vor, en hún var kynnt á borgarafundi NFS í bænum fyrr í kvöld. Þar kemur í ljós að Sjálfstæðisflokkur bætir við sig tæpu prósentu frá síðustu kosningum og fengi 36,5 prósent ef kosið yrði nú. Framsóknarflokkurinn, sem starfar í meirihluta með sjálfstæðismönnum á Akureyri, tapar hins vegar talsverðu fylgi, fer úr rúmum 24 prósentum í síðustu kosningum í 14 prósent. Bæði Vinstri - grænir og Samfylkingin bæta við sig á Akureyri, Samfylkingin fer úr tæpum 14 prósentum í 22 og Vinstri - grænir úr tæpum átta prósentum í átján. Listi fólksins tapar hins vegar helmingi af fylgi sínu og mælist með tæp átta prósent.

Yrðu þetta niðurstöður kosninga í vor heldur Sjálfstæðisflokkurinn sínum fjórum bæjarfulltrúum en Framsóknarflokkurinn missir tvo af sínum þremur fulltrúum og meirihlutinn er því fallinn. Samkvæmt könnuninni fengi Samfylkingin þrjá bæjarfulltrúa og bætir við sig tveimur og vinstri - grænir fengju tvo. Listi fólksins tapaði hins vegar öðrum af bæjarfulltrúum sínum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×