Sport

Orðinn hundleiður á spurningum um framtíð sína

Thierry Henry er búinn að fá sig fullsaddan af spurningum um framtíð sína og vill að fjölmiðlar einbeiti sér að leikjum Arsenal í Meistaradeildinni
Thierry Henry er búinn að fá sig fullsaddan af spurningum um framtíð sína og vill að fjölmiðlar einbeiti sér að leikjum Arsenal í Meistaradeildinni NordicPhotos/GettyImages

Thierry Henry brást hinn versti við á blaðamannafundi í dag þegar hann var enn eina ferðina spurður út í framtíð sína hjá Arsenal. Blaðamannafundurinn var hugsaður fyrir viðureign Villarreal og Arsenal í Meistaradeildinni, en þegar blaðamenn spurðu Henry út í framtíð hans hjá Arsenal, lét sá franski þá heyra það.

"Hverjum skulda ég hvað og fyrir hvað?" sagði Henry reiður þegar hann var spurður hvort honum þætti hann ekki skulda Arsenal að framlengja samning sinn við félagið. "Ég veit ekki betur en að ég sýni liðinu tryggð mína á vellinum - sjáið þið það ekki? Ég er bara maður eins og aðrir og þarf minn tíma til að hugsa málið vandlega. Ég skulda engum neitt nema kannski pabba mínum fyrir að búa mig til.

Við erum komnir á þennan fund til að ræða mikilvægan leik okkar í Meistaradeildinni og það er algjör synd að menn þurfi að vera að draga athyglina frá því með því að velta sér upp úr einhverju öðru. Takmark mitt hefur alltaf verið að vinna Meistaradeildina og nú þurfum við að einbeita okkur að því og engu öðru," sagði Henry.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×