Innlent

Greitt fyrir starfsþjálfun

Emil B. Karlsson, fulltrúi Samtaka atvinnulífsins í nefnd menntamálaráðuneytisins um eflingu starfsnáms, segir einn merkilegasta þáttinn í skýrslunni fjalla um aðkomu atvinnulífsins að mótun starfsnáms. Hann telur of lítið hafa farið fyrir þessum þætti í umfjöllun um málið síðustu daga.

Emil er verkefnisstjóri hjá Samtökum verslunar og þjónustu og sat fyrir hönd Samtaka atvinnulífsins í nefndinni. „Mestur krafturinn fór í umræður um að koma upp kerfi sem stuðlaði að því að hvetja atvinnulífið til að stjórna þessu starfsnámi og móta það. Ég held að okkur hafi tekist í þessari nefnd að búa til slíkt kerfi en umfjöllunin í fjölmiðlum hefur meira miðast að skólakerfinu,“ segir Emil.

Hann segir núverandi nám­skrár fyrir starfsnám svo þunglamalegar að það taki jafnvel nokkur ár að fá þær samþykktar því þær hafi reglugerðarígildi. „Þegar þær koma út þá eru þarfir atvinnulífsins kannski orðnar allt öðruvísi. Í tillögunum er gert ráð fyrir því að fulltrúar frá atvinnulífinu verði alltaf með puttana á því að móta námskrár eftir þörfum atvinnulífsins.“

Þetta segir Emil verða gert í gegnum svokölluð starfsgreinaráð. „Þessi starfsgreinaráð eru til núna en það var ákveðið að endurskipuleggja þau. Þeim verði fækkað, þau fái fastara form, þjónustu frá menntayfirvöldum og aukin fjárframlög.“

Önnur nýjung sem Emil bendir á að komi fram í tillögunum er það að greitt verði fyrir vinnustaðanám og -þjálfun. „Núna er það þannig að vinnustaðir sem taka nemendur í þjálfun greiða sjálfir kostnað af því. Við leggjum til að vinnustaðaþjálfunin muni fara fram samkvæmt ákveðnum gæðaviðmiðum og að þá verði líka greitt fyrir hana,“ segir Emil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×