Innlent

Þrír enn óvinnufærir eftir klórgasslysið

Á vettvangi slyssins í lok júní.
Á vettvangi slyssins í lok júní. MYND/Helgi G.

Þrír eru enn óvinnufærir eftir klórgasslysið í sundlauginni á Eskifirði á dögunum. Rafmagnskerfi laugarinnar, sem er glæný, virkar ekki sem skyldi eftir slysið og gæti því þurft að skipta algjörlega um.

Slysið átti sér stað í lok júní þegar starfsmaður Olís hellti óvart ediksýru í tank sundlaugarinnar á Eskifirði þar sem fyrir var klórlausn. Við það myndaðist hið hættulega klórgas sem olli því að um þrjátíu manns var komið undir læknishendur. Læknir á heilsugæslustöðinni á Eskifirði sagði í samtali við NFS í morgun að af þeim væru þrír ennþá óvinnufærir vegna öndunarerfiðleika, en virtust þó vera á hægum batavegi.

Þá er ástand sundlaugarinnar, sem tekin var í notkun í maí síðastliðnum, ekki gott. Rafmagnskerfinu í henni hefur verið að slá út sem að sögn sérfræðinga stafar af því að klórgasið fer inn í koparvíra og étur þá upp í flestum tilvikum. Fólki í lauginni stafi þó ekki hætta af.

Ragnar Atli Guðmundsson, framkvæmdastjóri eignarhaldsfélagsins Fasteignar sem á sundlaugina, segir vinnuhóp, vera að gera úttekt á ástandi hennar. Ekki sé enn unnt að meta tjónið en Ragnar segir að rafmagnskerfið í heild kosti 18 milljónir króna, og hugsanlegt sé að það þurfi að skipta því öllu út. Aðspurður segir hann ekki liggja fyrir hver sé skaðabótaskyldur í málinu en það muni koma í ljós þegar vinnuhópurinn lýkur vinnu sínu.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×