Innlent

Tólf ákærðir fyrir mótmæli við Kárahnjúka

Búðir Íslandsvina undir Snæfelli í sumar.
Búðir Íslandsvina undir Snæfelli í sumar. MYND/NFS

Búið er að birta tólf þeirra sem mótmæltu við Kárahnjúkavirkjun í sumar ákærur fyrir að fara í óleyfi inn á virkjanasvæðið. Brot þeirra varða allt að eins árs fangelsi.

Upphaflega átti að ákæra fimmtán einstaklinga. Ekki náðist í þrjá þeirra þar sem þeir voru farnir af landi brott og því var fallið frá ákærum á hendur þeim aðilum í bili. Eftir standa tólf en þar af eru þrír Íslendingar og var síðasta einstaklingum birt ákæra í dag.

Um þrjú tilvik er að ræða þar sem mótmælendur fóru í óleyfi inn á virkjanasvæði við Kárahnjúkavirkjun í sumar. Fólkið lagðist meðal annars á vegi og stöðvaði umferð og vinnu á svæðinu. Fólkið neitaði síðan að fara þegar lögreglan hafði afskipti af þeim. Tvö tilvikanna urðu á vinnusvæði Suðurverks við Desjarárstíflu og eitt við Kárahnjúkastíflu.

Brot fólksins varða meðal annars 231. grein hegningarlaga sem lúta að því að ryðjast inn á stað sem er fólki óheimill og varðar brotið allt að eins árs fangelsi. Fólkið er einnig ákært fyrir brot á 19. grein lögreglulaga um skyldu til að hlíða fyrirmælum sem lögreglan gefur til að halda uppi lögum og reglu á almannfæri. Allir sakborningarnir neita sök.

Verktakafyrirtækin Suðurverk og Impregilo ætla að krefjast skaðabóta frá fólkinu en ekki er vitað hversu háar þær veða. Aðalmeðferð málsins hefst 26. október í Héraðsdómi Austurlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×