Innlent

Segir von á fleiri kvörtunum til Samkeppniseftirlitsins

MYND/Valgarður
Ólafur Magnússon, framkvæmdastjóri Mjólku, segir úrskurð Samkeppniseftirlitsins um að Osta- og smjörsalan hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína gagnvart fyrirtækinu sigur fyrir Mjólku. Með honum sé tekið undir öll meginsjónarmið Mjólku í málinu. Hann segir að fyrirtækið hyggist senda fleiri mál til Samkeppniseftirlitsins vegna þess sem hann kallar undirboð Osta- og smjörsölunnar.

Mjólka kvartaði til Samkeppniseftirlitsins vegna þess að fyrirtækið var látið borga meira fyrir undanrennuduft frá Osta- og smjörsölunni en Ostahúsið og taldi Samkeppniseftirlitið það brot á samkeppnislögum.

Ólafur fagnar því enn fremur að Samkeppniseftirlitið staðfesti að með tilkomu Mjólku hafi orðið grundvallarbreyting á umhverfi mjólkurframleiðslu og -vinnslu. Hann vænti þess enn fremur að landbúnaðarráðherra grípi þegar til aðgerða sem Samkeppniseftirlitið leggi til um að breytingar verði á ákvæðum búvörulaga, sem hindra samkeppni og mismuna fyrirtækjum í mjólkuriðnaði, og tollar á mjólkurdufti verði felldir niður í því skyni að greiða fyrir samkeppni í mjólkuriðnaði.

Ólafur sagði í samtali við fréttastofu NFS að með úrskurðinum væri að hans mati tekin afdráttarlaus afstaða gegn núverandi kerfi í mjólkuriðnaði og að innkoma Mjólku á markaðinn hafi bætt hag neytenda og bænda.

Hann sagði enn fremur að það væri með ólíkindum ósvífið hjá Osta- og smjörsölunni að bera því við að mannleg mistök hefðu valdið því að Mjólka þurfti að greiða meira fyrir undanrennuduft en Ostabúðin. Osta- og smjörsöluna hefði ekki lækkað verðið til Mjólku heldur hækkað verðið til Ostahússins.

Hann segir fleiri kvartanir á leið inn á borð Samkeppniseftirlitsins frá Mjólku. Þær lúti að meintum undirboðum Osta- og smjörsölunnar. Forsvarsmenn Mjólku viti til þess að í janúar, eftir að fetaostur fyrirtækisins hafi komið á markað, hafi Osta- og smjörsalan boðið viðskiptavinum sínum um 20 prósenta afslátt af fetaosti og þá hafi Mjólka staðfest dæmi um það að Osta- og smjörsalan hafi í sumar veitt 40 prósenta afslátt af slíkum osti. Þau gögn verði send Samkeppniseftirlitinu enda telji hann að Osta- og smjörsalan reyni með þessu leynt og ljóst að drepa af sér alla samkeppni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×