Innlent

Hefði getað breytt sögunni

Leiðtogafundurinn í Höfða var enn dramatískari en áður var talið. Þetta sýna skjöl sem nýverið voru gerð opinber þar sem samtöl Gorbatsjovs og Reagans eru birt orðrétt. Aðeins vantaði herslumuninn til þess að fundurinn hefði breytt heiminum varanlega og gert hann að betri og öruggari stað, að mati bandarísks fræðimanns sem lesið hefur hvert einasta orð sem leiðtogunum og ráðgjöfum þeirra fór á milli.

Tveir bandarískir fræðimenn og einn rússneskur kynntu í dag niðurstöður rannsókna sinna á nýbirtum skjölum ríkjanna tveggja frá leiðtogafundinum. Thomas Blanton er forstöðumaður National Security Archives við George Washington háskóla í Bandaríkjunum. Hann hefur lesið þúsundir skjala frá öllum fundum Reagans og Gorbatsjovs og líkir þeim við leikrit í fjórum þáttum. Hann telur fundinn hafa verið mun dramatískari en almennt hefur verið talið, leiðtogarnir hafi tekist á og aðeins verið hársbreidd frá því að ná sögulegu samkomulagi um eyðingu kjarnorkuvopna.

Blanton opnaði einnig formlega í dag vefsíðu þar sem hægt er að skoða hluta þessara skjala, meðal annars vélritað bréf frá Gorbatsjov til Reagans, dagsett 15. september 1986, þar sem hann leggur til að þeir hittist bara tveir á stuttum fundi og ræði saman í trúnaði, til dæmis á Íslandi eða í Lundúnum. Vefslóðin er http://www.gwu.edu/~nsarchiv/.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×