Innlent

Úrskurður um gæsluvarðhald felldur úr gildi

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. MYND/Valgarður Gíslason

Hæstiréttur felldi í dag úr gildi úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að maður skuli sæta gæsluvarðhaldi til 21. nóvember næstkomandi vegna rannsóknar á stórfelldu fíkniefnasmygli. Maðurinn hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 15. ágúst. Fram kemur í úrskurði Héraðsdóms að maðurinn er grunaður um að hafa aðstoðað tvo aðra menn sem teknir á Keflavíkurflugvelli við komuna til landsins 9. ágúst sl. með töluvert af fíkniefnum meðferðis. Maðurinn er grunaður um að hafa skipulagt, haft milligöngu um og fjármagnað ferð mannanna tveggja sem teknir voru með fíkniefnin.

Hæstiréttur gerir athugsemd við það í úrskurði sínum hve langan tíma það hafi tekið að ákæra í málinu, en það hafi enn ekki verið gert. Rannsókn málsins hafi verið sögð á lokastigi 29. ágúst sl. þegar gæsluvarðhald var framlengt og það staðfest af Hæstarétti. Engin gögn hafi bæst við rannsóknargögn málsins síðan þá.

Í úrskurði Hæstaréttar segir að eðli málsins samkvæmt hvíli rík skylda á sóknaraðila að hraða meðferð máls eftir föngum, þegar sá sem rannsókn beinist að sæti gæsluvarðhaldi. Telur dómur að unnt hefði verið að senda málið til ríkissaksóknara og taka ákvörðun um ákæru á þeim tíma sem ákveðinn hafi verið með úrskurði Hæstaréttar um mánaðamótin ágúst - september. Ekki hafi komið fram viðhlítandi skýringar á því hvers vegna svo hafi ekki verið. Því felli Hæstiréttur gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms úr gildi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×