Innlent

Mjólka ætlar að senda fleiri mál til Samkeppniseftirlitsins

Samkeppniseftirlitið telur að Osta- og smjörsalan hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína gagnvart Mjólku ehf. og þannig brotið gegn samkeppnislögum. Mjólka hyggst senda fleiri mál til Samkeppniseftirlitsins.

Mjólka kvartaði til Samkeppniseftirlitsins vegna þess að fyrirtækið var látið borga meira fyrir undanrennuduft frá Osta- og smjörsölunni en Ostahúsið og taldi Samkeppniseftirlitið það brot á samkeppnislögum.

Ólafur Magnússon, framkvæmdastjóri Mjólku, segir að með þessari niðurstöðu sé viðurkennt að Osta- og smjörsalan hafi brotið á Mjólku samkvæmt lögum og nýtt sér markaðsráðandi stöðu sína. Það sé alvarlegt mál að fyrirtæki sem njóti lögverndaðrar einokunar noti stöðu sína til að koma í veg fyrir virka samkeppni.

Að fenginni þessari niðurstöðu beinir Samkeppniseftirlitið tilmælum til landbúnaðarráðherra, um að hann beiti sér fyrir breytingum á ákvæðum búvörulaga, sem hindra samkeppni og mismuna fyrirtækjum í mjólkuriðnaði, og beiti sér fyrir því að fella niður tolla á mjólkurdufti í því skyni að greiða fyrir samekppni í mjólkuriðnaði. Þetta segir Ólafur sigur fyrir Mjólku sem hyggst flytja inn mjólkurduft verði tollar þar afnumdir.

Að sögn Ólafs má Samkeppniseftirlitið eiga von á fleiri kvörtunum frá Mjólku. Fyrirtækið hafi þurft að búa við það að samkeppnisaðilar hafi verið að undirbjóða og veita allt að 40% afslátt af samskonar vörum og Mjólka framleiði. Ekki sé hægt að búa við slíkt og þau mál verið lögð fyrir Samkeppnisyfirvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×