Borgar Þór Einarsson, formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna er ekki lengi að hugsa sig um hver séu sín bestu og verstu kaup þegar blaðamaður slær á þráðinn.
„Mín bestu kaup myndu vera 120 fermetra íbúð sem ég festi kaup á árið 1999 í Vesturbæ Reykjavíkur. Til stóð að setja allt spariféð í deCode Genetics en íbúðarkaup urðu ofan á. Eins og fram hefur komið þá hefur fasteignaverð þróast með „örlítið“ öðrum hætti en verð á hlutabréfum í deCode síðan í júní 1999. Ef ekki hefði komið til óvænt fjölgun í fjölskyldunni og þess vegna þörf fyrir stærra húsnæði, hefði maður líklega orðið gjaldþrota á þessum fyrirhuguðu hlutabréfakaupum. Þess vegna má segja að íbúðarkaupin séu bestu kaup sem ég hef gert.“
Verstu kaup sín segir Borgar tengjast hreingerningum eða í það minnsta metnaði í þá átt. „Ég keypti einu sinni hreingerningarpakka í Sjónvarpsmarkaðnum sáluga. Ég veit ekki alveg hvort er fáránlegra, sú bjartsýna hugsun að ég ætti eftir að gera átak í hreingerningum eða það að kaupa tuskur, sápu og svampa í fjarsölu.“