Evrópusambandið tilkynnti nú undir kvöld að Ísraelar færu villu vegar ef þeir teldu sig hafa heimild fyrir áframhaldandi árásum á Líbanon eftir fund utanríkisráðherra í Róm í gær. ESB segir að árásirnar verði að hætta tafarlaust en Ísraelar eru ekki á þeim buxunum.
Ísraelar eru nú að kalla út þúsundir hermanna í viðbragðsstöðu til þess að endurnýja liðsstyrk sinn á vígvellinum. Ráðherrar ríkisins ákváðu hins vegar að bíða með að ráðast í víðtækari landhernað í Líbanon en nú er, enda var mest mannfall meðal hermanna Ísraela í gær af öllum sextán dögunum síðan átökin hófust.
Evrópusambandið lýsti því yfir í dag að túlkun Ísraela á niðurstöðum Rómarfundarins væri kolröng. Síst hefðu utanríkisráðherrarnir ætlað að gefa grænt ljós á áframhaldandi árásir eins og Ísraelar hefðu viljað skilja niðurstöður fundarins, þar sem utanríkisráðherrarnir gátu ekki komið sér saman um aðgerðir til að stöðva árásirnar.
Í skoðanakönnun sem gerð var meðal Ísraelsks almennings kemur í ljós að 82 prósent Ísraela styðja áframhaldandi árásir og 95 prósent telja árásir Ísraela á Líbanon réttlætanlegar.