„Egypska áætlunin er núna Araba áætlunin,“ sagði Ahmed Aboul Gheit, forseti bandalagsins í gær. Án þess að nefna Trump á nafn ítrekaði hann að bandalagið setti sig algjörlega upp á móti brottflutningi íbúa, eins og hugmyndir Bandaríkjaforseta fólu í sér.
Fyrir fundinn höfðu Egyptar kynnt til sögunnar 90 blaðsíðna áætlun um uppbyggingu á Gasa, þar sem finna mátti myndir af grónum hverfum og stórum byggingum. Ólíkt hugmyndum Trump um ferðamannaparadís á við ströndina, fela tillögur Arabaríkjanna hins vegar einnig í sér pólitíska stefnu.
Abdul Fattah al-Sisi, forseti Egyptalands, sagði við setningu fundarins í gær að samhliða uppbyggingu innviða á Gasa þyrfti að taka ákveðin skref í átt að hinni svokölluðu „tveggja ríkja lausn“; palestínsks ríkis við hlið Ísrael, sem Arabaríkin segja einu raunhæfu lausnina á deilum á svæðinu.
Áætlun Arabaríkjanna gerir ráð fyrir að Gasa yrði tímabundið stjórnað af framkvæmdanefnd teknókrata, sem myndu heyra undir palestínsk stjórnvöld. Athygli vekur að ekki er rætt um aðkomu Hamas-samtakanna, sem virðast hafa sætt sig að koma ekki að stjórnun svæðisins en hafa neitað að afvopnast.
Skoðanir eru sagðar skiptar meðal Arabaríkjanna hvað varðar Hamas; sum eru sögð vilja að samtökin heyri sögunni til, á meðan aðrir segja það undir Palestínumönnum komið.
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, og ríkisstjórn hans hafa bæði neitað aðkomu Hamas og palestínsku stjórnarinnar, auk þess sem þeim hugnast ekki tveggja ríkja lausnin. Netanyahu hefur hins vegar lofað mjög hugmyndir Trump um yfirráð Bandaríkjamanna á Gasa.
Samkvæmt umfjöllun BBC fela áætlanir Arabaríkjanna einnig í sér viðveru alþjóðlegra friðargæsluliða á svæðinu en þau eru sögð óviljug til að leggja fjármagn til uppbyggingarinnar nema tryggt sé að ófriður brjótist ekki út á ný.