Viðskipti innlent

Apple-verslun opnar í Finnlandi

Öflun ehf., sem rekur Apple-verslanir á Norðurlöndum, opnaði 13. Apple-verslunina í Helsinki í Finnlandi í dag. Þetta er önnur verslun fyrirtækisins í landinu.

Mikil spenna var vegna opnunarinnar og biðu um 300 manns fyrir utan verslunina eftir því að hún opnaði. Með því var fyrra met slegið hvað varðar aðsókn og veltu á opnunardegi, að því er fram kemur í tilkynningu frá Öflun.

„Það kemur ánægjulega á óvart að það skyldi nást að toppa fyrra met frá opnun íslensku verslunarinnar á Laugavegi, en það tókst. Þessar góðu viðtökur gefa tóninn á frekari sókn í Finnlandi - og jafnvel austar." segir Bjarni Ákason, framkvæmdastjóri Öflunar, í tilkynninguni.

Öflun keypti nýverið norska fyrirtækið Office Line. Fyrirtækin hafa sameinast og er áætluð ársvelta um 7 milljarðar íslenskra króna.

Hið sameinaða félag er nú með tæplega 200 starfsmenn, 12 söluskrifstofur og 13 verslanir en áætlað er að þær verði enn fleiri við lok ársins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×