Enski boltinn

Arsenal á sigurbraut

hetjan Jussi Jaaskelainen varði tvö víti á þriggja mínútna kafla og kom í veg fyrir að Blackburn fengi eitthvað út úr leiknum gegn Bolton.
hetjan Jussi Jaaskelainen varði tvö víti á þriggja mínútna kafla og kom í veg fyrir að Blackburn fengi eitthvað út úr leiknum gegn Bolton. MYND/nordicphotos/getty images

Arsenal heldur áfram að elta efstu lið deildarinnar en í gær vannst fyrirhafnarlítill sigur á nýliðum Reading 4-0 á útivelli. „Við byrjuðum vel, spiluðum vel og tækni okkar gerði gæfumuninn. Við stjórnuðum þessum leik algjörlega. Einbeitingin hvarf síðustu tuttugu mínúturnar en á heildina litið er ég ánægður.

Liðið verður betra og betra með hverjum leiknum og við getum bætt okkur enn frekar,“ sagði Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, en liðið hefur nú unnið fimm deildarleiki í röð.

Eftir 58 sekúndna leik í gær tók Arsenal forystuna með marki frá Thierry Henry en hann átti eftir að bæta öðru við áður en flautað var til leiksloka. Erkifjendur Arsenal gátu einnig fagnað í gær því Tottenham vann West Ham 1-0 með stórglæsilegu marki frá Mido. Vandræði West Ham halda áfram en liðið er í næstneðsta sæti deildarinnar.

Finnski markvörðurinn Jussi Jaaskelainen var hetja Bolton en hann varði tvær vítaspyrnur í sigri liðsins á Blackburn á útivelli. Eina mark leiksins skoraði reynslu­boltinn Ivan Campo sem leikið hefur nær óaðfinnanlega á tímabilinu. Bolton er óvænt í þriðja sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir Manchester United og Chelsea. Þá eykst pressan á Glenn Roeder, stjóra Newcastle, en liðið tapaði fyrir Middlesbrough í gær þar sem Yakubu skoraði sigurmarkið undir lokin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×