Viðskipti innlent

Kaupþing spáir lægri verðbólgu

Greiningardeild Kaupþings segir flest benda til að verðbólga hafi náð hámarki. Vegna vísbendinga um að draga muni úr eftirspurn í hagkerfinu á næstu mánuðum muni draga úr verðbólguþrýstingi. Muni verðbólgumarkmiðið Seðlabankans verða náð á þriðja fjórðungi næsta árs. Greininardeildin spáir því sömuleiðis, að fasteignaverð muni lækka um 4 prósent á næsta ári.

Greiningardeildin segir í nýrri verðbólguspá sinni að 12 mánaða verðbólga mælist 7,2 prósent, sem sé toppurinn. Hafi verðbólguskot riðið yfir sem orsakaðist í fyrsta lagi af snarpri veikingu krónunnar og mikilli eftirspurn í hagkerfinu auk þess sem einkaneysla hafi vaxið mjög hratt.

Þá munu áhrifa af lækkun virðisaukaskatts, niðurfellingu vörugjalda og lækkun almennra tolla af kjötvöru koma inn í vísitölumælingum í mars og apríl og mun verðbólga lækka mjög skart, að sögn greiningardeildarinnar.

Greiningardeildin segir að samkvæmt fasteignalíkani muni fasteignaverð lækka um 4% á næstu fjórum ársfjórðungum en eftir það muni markaðurinn taka við sér á ný. Lækkun fasteignaverðs muni vega á móti hækkun á vörum og þjónustu í hagkerfinu á næsta ári. Samkvæmt deildinni verður verðbólgan í kringum 7% á þessum fjórðungi en lækka nokkuð skarpt strax á næsta ári. Meðalverðbólga á þessu ári mun vera um 6,8%, 3,5% á næsta ári og 3,3% árið 2008, að sögn greiningardeildar Kaupþings.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×