Krónan hefur fallið um þrjú prósent eftir að matsfyrirtækið Standard & Poor's greindi frá því í dag að það hefði lækkað lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs Íslands. Matsfyrirtækið segir lækkanirnar endurspegla minnkandi aðhald í ríkisfjármálum í aðdraganda þingkosninga á næsta ári og líkur hafi aukist á harðri lendingu í efnahagslífinu. Moody´s matsfyrirtækið staðfestir hinsvegar gildandi mat sitt á lánshæfi ríkissjóðs.
Þá hefur gengi hlutabréfa farið hratt niður á við, mest í FL Group eða um 4,26 prósent.
Matfyrirtækið lækkaði lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs Íslands fyrir langtímaskuldbindingar í erlendri mynt úr A+ úr AA- og fyrir skammtímaskuldbindingar í erlendri mynt í A-1 úr A-1+. Um leið var lánshæfiseinkunnin fyrir langtímaskuldbindingar í íslenskum krónum lækkuð í AA úr AA+ en einkunnin fyrir skammtímaskuldbindingar í íslenskum krónum var staðfest A-1+. Matfyrirtækið segir horfur stöðugar.
Standard & Poor's segir, að lækkunin endurspegli minnkandi aðhald í ríkisfjármálum í aðdraganda þingkosninga. „Breytingar við afgreiðslu fjárlaga 2007 eru þensluhvetjandi á sama tíma og brýn þörf er á að draga úr þjóðhagslegu ójafnvægi sem stafar af óhóflegri innlendri eftirspurn." Standard & Poors segir að þessi þensluhvetjandi stefna sé æ meira á skjön við stefnuna í peningamálum sem hafi knúið Seðlabankann til hækka vexti, síðast um 0,25 prósentur í gær. "Þar með aukast líkur á harðri lendingu íslenska hagkerfisins þegar dregur úr því þjóðhagslega ójafnvægi sem skapast hefur síðan útlána- og fjárfestingaþenslan hófst fyrir tveimur árum," segir matsfyrirtækið.