Innlent

D-listi og F-listi að ná saman í Reykjavík?

MYND/Pjetur

Margt bendir til að Frjálslyndi flokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn séu að ná saman um myndun borgarstjórnar í Reykjavík. Efstu menn á lista Frjálslyndra sitja nú á undirbúningsfundi fyrir fund með sjálfstæðismönnum upp úr hádegi.

Ólafur F. Magnússon, borgarfulltrúi F-listans, sagði fyrir stundu að vandlega þurfi að fara yfir stöðuna og að flokkurinn sé tregur til að kvika frá helstu áherslumálum sínum, eins og flugvallarmálinu. Sem kunnugt er vill F-listinn að flugvöllurinn verði áfam í Vatnsmýrinni, en þó með breytingum sem auka munu nýtingu mýrarinnar undir annað.

Ef ekki verður af samkomulagi þessara tveggja flokka reikna kunnugir með þvi að Samfylkingin, Vinstri grænir og Framsóknarmenn muni ræða við Frjálslynda um meirihlutamyndun en ekki er loku fyrir það skotið að fulltrúi Framsóknarflokks gangi til liðs við sjálfstæðismenn, ef þeir ná ekki samkomulagi við Frjálslynda.

Hugmyndir um samstarf við Frjálslynda leggst ekki vel í Björn Bjarnason dómsmálaráðherra sem segir á heimasíðu sinni að reynsla sín af framgöngu Ólafs F. Magnússonar í borgarstjórn Reykjavíkur hafi oftar en einu sinni orðið tilefni þungrar gagnrýni af sinni hálfu.

Á Akureyri eiga Samfylkingin, L-listinn og Vinstri grænir í viðræðum um myndun meirihluta.

Í Árborg ætla fulltrúar Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Samfylkingar að hittast síðdegis til að halda áfram samstarfsviðræðum, en þar unnu sjálfstæðismenn mikið á í kosningunum.

Á Akranesi eiga Frjálslyndir og sjálfstæðismenn í viðræðum um myndun nýs meirihluta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×