Innlent

Síbrotamenn í umferðinni

MYND/Róbert

Lögreglan í Reykjavík hafði afskipti af allmörgum ökumönnum á síðasta sólarhring vegna umferðarlagabrota. Flestir voru teknir fyrir hraðakstur en nær allir þeirra hafa áður verið sektaðir fyrir að keyra of geyst.

Segir lögregla í raun megi tala um síbrotamenn í þessu sambandi því sumir virðast einfaldlega ekki láta sér segjast. Einn þeirra sem ók of hratt í gær var síðast tekinn fyrir hraðakstur fyrir hálfum mánuði. Annar gerðist sekur um slíkt hið sama í ágúst og nokkrir til viðbótar virtu heldur ekki leyfilegan hámarkshraða fyrr á árinu.

Þá stöðvaði lögreglan för þriggja ökumanna sem allir eiga það sameiginlegt að vera sviptir ökuréttindum. Þrátt fyrir prófleysið eru þeir enn á ferðinni í umferðinni. Þá voru tveir ökumenn teknir fyrir að aka gegn rauðu ljósi í gær. Hinir sömu hafa heldur ekki hreinan skjöld í umferðinni. Segir á vef lögreglunnar að ljóst sé að margir ökumenn verði að líta í eigin barm og hugsa sinn gang.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×