Innlent

Engar forsendur til að hætta við virkjunarframkvæmdir

Vinnusvæði við Kárahnjúkavirkjun.
Vinnusvæði við Kárahnjúkavirkjun. MYND/GVA

Framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun halda áfram eins og samþykkt var í upphafi og mótmæli hafa ekki áhrif á hana. Þetta segir Sigurður Arnalds, talsmaður Landvirkjunar, en þúsundir manna söfnuðust saman í kvöld á Austurvelli til að fara fram á að fyllingu Hálslóns verði frestað.

Sigurður segir um gríðarlega fjárfestingu að ræða sem skila mun Landsvirkjun góðri arðsemi, þjóðinni umtalsverðum gjaldeyristekjum og snúa við og efla stórlega atvinnuþróun á Austurlandi. Einfaldlega engar forsendur séu til að breyta fyrri lýðræðislegum ákvörðunum um þetta verk.

Í dag var farið yfir tæknilegan undirbúning vegna fyllingar Hálslóns við Kárahnjúkastíflu af tæknimönnum verksins. Hjáveitugöngum stíflunnar verður lokað og fylling lónsins hefst snemma dags á fimmtudaginn.

Sigurður segir enga sérstaka athöfn verða vegna þessa áfanga en fjölmiðlum verður gefinn kostur á að fylgjast með fyrstu fyllingu lónsins.

Það safnast hratt í metrum talið í lónið í fyrstu vegna þess að rúmmálið næst stíflunni er lítið, síðan hægir á þegar lónið teygist lengra til suðurs. Áætlað er að lónið fari í hálfa hæð í vetur og að fyllingu ljúki með sumarrennslinu á næsta ári.

Fljótsdalsstöð tekur til starfa næsta vor og fullri framleiðslu verður náð í október á næsta ári.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×