Innlent

Endurskoða ákvörðun um sumarhúsabyggð við Úlfljótsvatn

MYND/GVA

Frambjóðandi Samfylkingarinnar í Reykjavík telur rétt að endurskoða þá ákvörðun að leggja land við Úlfljótsvatn undir sumarhúsabyggð. Þar er gert ráð fyrir sex hundrum lóðum undir sumarhús. Allir flokkar í framboði í Reykjavík tjáðu sig um málið á fundi í gær en fulltrúi „ex-bés" dró sig í hlé meðan á umræðunni stóð.

Orkuveita Reykjavíkur og fasteingafélagið Klasi, sem er dótturfélag Glitnis, hafa stofnað hlutafélag um byggingu sex hundruð sumarbústaða við Úlfljótsvatn. Þar verður svokölluð frístundabyggð. Orkuveitan leggur til landið sem hlutafé en það er metið á hundrað og fimmtíu milljónir. Klasi lagði jafnháa upphæð fram.

Sjálfstæðismenn hafa gagnrýnt þessa ákvörðun og sagt uppbyggingu frístundabyggðar sem þessarar ekki í samræmi við starfsemi orkufyrirtækis. Alfreð Þorsteinsson, stjórnarformaður Orkuveitunnar, hefur sagt í fjölmiðlum að Orkuveitan sjálf byggi bústaðina, hún skipuleggi frístundabyggð í samvinnu við Klasa.

Á fundi sem Íslandsvinir, Náttúruvaktin og Náttúruverndarsamtök Íslands boðuðu til í gær með frambjóðendum í borgarstjórnarkosningunum nú í vor voru fulltrúar allra framboðanna og tjáðu sig um stefnu flokkanna í umhverfismálum.

Á fundinum var spurt um afstöðu framboðanna til frístundabyggðarinnar og tjáðu fulltrúar allra flokka, utan x-B, sig um málið. Var það mál manna að ákvörðunina þyrfti að taka til endurskoðunar og jafnvel réttast að hætta við framkvæmdir með öllu.Stefán Jón Hafstein, frambjóðandi Samfylkingarinnar, sagði rétt að endurskoða áætlunina.

 

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×