Erlent

Ósáttir við að palestínskur ráðherra sæki ráðstefnu í Svíþjóð

Atef Adwan, ráðherra flóttamannamála í Palestínu, mætir á ráðstefnuna í Malmö í gær.
Atef Adwan, ráðherra flóttamannamála í Palestínu, mætir á ráðstefnuna í Malmö í gær. MYND/AP

Ísraelsmenn og Frakkar hafa brugðist ókvæða við þeirri ákvörðun sænskra stjórnvalda að veita ráðherra í heimastjórn Palestínumanna vegabréfsáritun svo hann geti sótt ráðstefnu í Malmö um málefni Palestínumanna. Ráðherrann þakkar Svíum og segir ákvörðun þeirra pólitísk skilaboð.

Búist er við að rúmlega eitt þúsund Palestínumenn, sem búsettir eru víðsvegar um Evrópu, sæki ráðstefnuna. Þar verður fjallað um ýmis mál sem brenna á Palestínumönnum svo sem eins og möguleika flóttamanna á að snúa aftur á Vesturbakkann.

Hamas-liðar unnu sigur í palestínsku þingkosningunum fyrr á árinu og hafa samtökin myndað ríkisstjórn. Sænsk stjórnvöld ákváðu á dögunum að veita Atef Adwan, ráðherra flóttamannamála, vegabréfsáritun svo hann geti sótt ráðstefnuna. Adwan mun þó ekki eiga fund með nokkrum ráðherra í sænsku ríkisstjórninni og ekki verður tekið á móti honum með opinberum hætti. Bent hefur verið á að þegar Adwan sé kominn til Svíþjóðar geti hann ferðast óáreittur milli Schengen landanna fimmtán og það séu mörg þeirra ekki sátt við, enda hefur Evrópusambandið, líkt og bandarísk stjórnvöld, ekki breytt frá þeirri skoðun sinni að Hamas séu hryðjuverkasamtök.

Frakkar hafa sérstaklega látið í ljós óánægju sína og segja að Svíar hafi ekki gert grein fyrir því með fullnægjandi hætti hver væri að fá áritunina. Frakkar hafa hafnað umsókn Hamas-liða í heimastjórninni um áritun.

Ákvörðun Svía hefur einnig vakið hörð viðbrögð meðal Ísraelsmanna sem segja að hún ljái Hamas lögmæti. Því vísar Göran Persson, forsætisráðherra Svíþjóðar, á bug. Öll ríki innan Schengen hafi fengið að vita af því að áritunin var veitt og ekki gert athugasemd. Þetta ætti því ekki að koma Schengen-ríkjum eða öðrum á óvart.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×