Juventus náði ekki að tryggja sér Ítalíumeistaratitilinn í knattspyrnu í dag þrátt fyrir 2-1 sigur á Palermo í næst síðustu umferð deildarinnar þar í landi. Á sama tíma unnu helstu keppinautar þeirra í AC Mila sem er í öðru sæti, 2-3 útisigur á Parma en þrjú stig skilja liðin fyrir lokaumferðina.
Juventus dugir þá eitt stig úr viðureign sinni við Reggina til að tryggja sér annan meistaratitilinn í röð á Ítalíu. Fari svo að Juventus og AC Milan verði jöfn að stigum eftir lokaumferðina mun AC Milan hampa titlinum vegna hagstæðari úrslita í innbyrðisviðureignum liðanna á leiktíðinni.
Pavel Nedved og Zlatan Ibrahimovic skoruðu mörk Juventus í dag sem komst í 2-0 gegn Palermo. Hjá AC Milan voru það Kaká, Cafu og Clarence Seedorf sem sáu um markaskorunina.