Innlent

Hætta málþófi um vatnalög

Fundað var fram undir miðnætti í von um að ná samkomulagi um afgreiðslu vatnalaga. Þegar samkomulag náðist var þingfundi frestað.
Fundað var fram undir miðnætti í von um að ná samkomulagi um afgreiðslu vatnalaga. Þegar samkomulag náðist var þingfundi frestað.

Samkomulag náðist á Alþingi laust fyrir miðnætti um að afgreiða vatnalagafrumvarp iðnaðarráðherra sem lög frá Alþingi. Stjórnarandstæðingar fengu það í gegn að lögin taka ekki gildi fyrr en eftir kosningar og geta þá afnumið þau áður en þau taka gildi nái þeir meirihluta.

Á sama tíma og tómlegt var um að lítast í þingsal Alþingis iðaði þinghúsið af lífi þar sem fundað var í flestum skúmaskotum. Stjórnarliðar og stjórnarandstæðingar funduðu saman og sitt í hvoru lagi fram eftir kvöldi í von um að ná samkomulagi um framhald á meðferð vatnalagafrumvarps iðnaðarráðherra. Samkomulagið náðist laust undir miðnætti. Iðnaðarráðherra kynnti það og kvaðst ánægður með niðurstöðuna.

Það var ákvæði um að lögin tækju ekki gildi fyrr en eftir kosningar sem fékk stjórnarandstæðinga til að fallast á samkomulagið. Ögmundur Jónasson, þingflokksformaður Vinstri-grænna, sagði stjórnarandstæðinga enn andvíga lögunum og að þeir myndu afnema þau eftir næstu kosningar ef þeir næðu völdum.

Nefnd verður skipuð til að fara yfir ýmis atriði sem tengjast lögunum og vonar Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, að það verði til þess að lögin verði betri úr garði gerð en þau eru.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir að nú skapist tækifæri til að taka lögin aftur til skoðunar næsta haust af hálfu nýrra stjórnvalda. Þá sé hægt að breyta lögunum eða afnema þau.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×