Innlent

Þotur og þyrlur farnar í lok september

Bandarísk stjórnvöld hafa tilkynnt ríkisstjórn Íslands að dregið verði stórlega úr starfsemi bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli síðar á þessu ári. Ákveðið hefur verið að orrustuþotur varnarliðsins og björgunarþyrlur þess verði fluttar brott í síðasta lagi fyrir lok september.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu. Íslenskum stjórnvöldum var tilkynnt þessi ákvörðun í símtali sem Nicholas Burns, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna, átti við Geir H. Haarde utanríkisráðherra í dag. Þá gekk sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi á fund forsætisráðherra og utanríkisráðherra og gerði þeim nánari grein fyrir ákvörðuninni.

Bandaríkjastjórn lýsir yfir eindregnum ásetningi sínum um að standa við varnarsamning ríkjanna frá 1951 og Norður Atlantshafssáttmálann og leggur til að viðræður milli landanna haldi áfram sem fyrst um framhald varnarsamstarfsins. Íslensk stjórnvöld leggja áherslu á að viðræðum sé hraðað því að brýnt sé að niðurstaða náist um framtíðarskipan í varnarmálum.

Íslensk stjórnvöld harma þessa ákvörðun bandaríkjastjórnar. Eins og fram hefur komið hafa þau lagt fram ítarlegar tillögur um aukna þátttöku í rekstri Keflavíkurflugvallar í ljósi aukinnar borgaralegrar umferðar um völlinn, sem og þátttöku í rekstri þyrlubjörgunarsveitar varnarliðsins.

Utanríkisráðherra hefur óskað eftir að koma á fund utanríkismálanefndar sem fyrst vegna málsins og einnig að flytja Alþingi munnlega skýrslu um það.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×