Árni Páll segist hafa notið trúnaðar í störfum sínum og muni ekki brjóta þann trúnað. Hann vill því ekki upplýsa hver varaði hann við, né hverjir áttu að hafa hlerað hann.
Norðmenn skipuðu á sínum tíma opinbera rannsóknarnefnd til að fara ofan í saumana á njósnum á tímum kalda stríðsins sem gerði síðan allar njósnir opinberar. Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði í fréttum NFS í gærkvöldi að slík nefnd væri óþörf enda hafi nú þegar verið sett á laggirnar nefnd undir formennsku Páls Hreinssonar lagaprófessors og dósents við Háskóla Íslands.
Formaður Framsóknarflokksins Jón Sigurðsson segir að ekki sé þörf fyrir sérstaka rannsóknarnefnd. Eðlilegt sé að álykta að nóg væri að hafa nefnd sem hefði fullt umboð til að skoða þau gögn sem til eru um þessi mál.
Páll Hreinsson, formaður rannsóknarnefndarinnar sagði að henni væri falið að semja reglur sem veita fræðimönnum frjálsan aðgang að upplýsingum úr kalda stríðinu. Nefndinni er ekki falin valdheimild til að rannsaka einstök mál.
Það þýðir að nefndin getur ekki rannsakað tímabilið frá 1945-1951. En þær meintu hleranir sem Jón Baldvin Hannibalsson, þá utanríkisráðherra, og Árni Páll Árnason, segjast hafa orðið fyrir áttu sér stað eftir 1991 og koma nefndinni þar af leiðandi ekkert við.
Flokksbróðir Jóns Sigurðssonar, Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra sagðist trúa því að öllum væri fyrir bestu að rannsaka málið því ekki verði búið við þessa óvissu.