Innlent

Ekki farið út í ævintýrafjárfestingar í OR

MYND/GVA

Verðandi borgarstjóri, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, segir að ekki verði farið út í neinar ævintýrafjárfestingar í Orkuveitunni. Eitt fyrsta verk nýs borgarstjórnarmeirihluta verði að fara rækilega ofan í áform um kaup hennar á grunnneti Símans.

Síðasti borgarráðsfundur núverandi meirihluta R-listans var haldinn í Ráðhúsinu í morgun. Alfreð Þorsteinsson stýrði fundi í fjarveru Stefáns Jóns Hafsteins, formanns borgarráðs, og Árna Þórs Sigurðssonar varaformanns.

Nýr meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks tekur við völdum næstkomandi þriðjudag en eitt fyrsta verk hans verður að fara yfir fyrirhuguð kaup Orkuveitu Reykjavíkur á grunnneti Símans.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, verðandi borgarstjóri, segir aðspurður að engir samningar við Símann séu í höfn. Það eigi eftir að fara yfir málið enda sé um að ræða tugmilljarða fjárfestingu. Farið verði yfir málið með faglegum hætti og menn hljóti að meta fjárhagslegan ávinning af því ef af kaupum verði. Ekki verði farið út í neinar ævintýrafjárfestingar.

Vilhjálmur segir enn fremur að eitt af fyrstu verkum nýs meirihluta verði að fara yfir þau samningsdrög sem virðist liggja fyrir en engar ákvarðanir verði teknar sem setji hagsmuni Orkuveitunnar eða borgarsjóðs í hættu. Aðspurður hvort málið verði hugsanlega sett í salt segir Vilhjálmur allt hugsanlegt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×