Innlent

Skafmiðar og greiðslukort

Stefán Haraldsson framkvæmdastjóri Bílastæðasjóðs
Stefán Haraldsson framkvæmdastjóri Bílastæðasjóðs

Bílastæðasjóður vill taka upp greiðslukortaþjónustu í öllum greiðsluvélum og miðamælum, skipta út stöðumælum fyrir miðamæla, hefja sölu á viku- og mánaðarkortum og bjóða upp á fjölbreytt úrval skafmiða fyrir ákveðinn gildistíma á ákveðnu gjaldsvæði, með ótiltekinn upphafs­tíma.

„Skafmiðana geturðu átt í hanskahólfinu þar til þú þarft að nota þá,“ útskýrir Stefán Haraldsson, framkvæmdastjóri Bílastæðasjóðs. „Þegar þá þarft á skafmiða að halda sækirðu hann í hólfið, skefur ártal, mánuð, dagsetningu og komutímann og þá gildir miðinn í klukkutíma. Þannig ertu búinn að borga miðana fyrir fram og átt þá til að grípa til þegar það hentar.“

Fjallað var um tillögurnar nýlega í framkvæmdaráði borgarinnar. Minnihlutinn hafði áhyggjur af sölu viku- og mánaðarkorta, sem er fyrirhuguð á netinu, og óttaðist að þau myndu auka bílastæðavandann í miðborginni.

Stefán telur þó ástæðulaust að hafa áhyggjur af því. Fyrst og fremst sé um aukna þjónustu við fyrirtæki að ræða, nýjungarnar henti sérstaklega stærri fyrirtækjum sem gera út marga bíla sem starfsmenn skiptast á um að nota. „Þetta er bara fjölbreyttari þjónusta.“

Erindi Bílastæðasjóðs var frestað milli funda og ákveðið að leita umsagnar Þróunarfélags miðborgarinnar og Hverfisráðs miðborgarinnar. Gert er ráð fyrir að þessar nýjungar verði teknar upp á næsta ári hljóti þær samþykki borgarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×