Innlent

Fáir lásu fyrsta blaðið

Aðeins þrjú prósent Dana lásu fyrsta tölublað Nyheds­avisen sem kom út á föstudag. Þetta er niðurstaða könnunar sem dagblaðið Berlingske tidende sagði frá í gær. Segir í frétt blaðsins að lesturinn sé minni en fríblöðin 24 tímar og Dato fengu þegar þau komu fyrst út í ágúst síðastliðnum.

Morten Nissen Nielsen, framkvæmdastjóri Nyhedsavisen, gefur lítið fyrir könnunina og bendir á að vegna bilunar í prentsmiðju hafi upplag blaðsins á fyrsta útgáfudegi verið helmingi minna en lagt var upp með. Hann segist ánægður með viðbrögð lesenda og auglýsenda og að allir byrjunarörðugleikar verði leystir. Dreifing blaðsins í miðborg Kaupmannahafnar verður þó mun minni en gert var ráð fyrir í upphafi þar sem húsfélög vilja ekki afhenda dreifingaraðilunum lykla að stigagöngum.

Þrátt fyrir fáa lesendur hefur forsíðufrétt Nyheds­avisen á föstudag valdið usla innanlands sem utan. En þar var sagt frá myndbandi sem tekið var á fundi ungliðahreyfingar Danska þjóðarflokksins þar sem keppt var í gerð niðrandi skopmynda af Múhameð spámanni. Hafa ungliðahreyfingar hinna dönsku stjórnmálaflokkanna slitið á öll tengsl við Danska þjóðarflokkinn.

Eins hafa fjölmiðlar í Miðausturlöndum tekið málið upp og stærsti stjórnarandstöðuflokkur Egyptalands hefur fordæmt athæfið og hvatt múslima til að standa vörð um trú sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×