Viðskipti innlent

Tap hjá Olíufélaginu

Olíufélagið ehf. og dótturfélög þess, Olíudreifing og Egó, tapaði 62,4 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Þetta er viðsnúningur hjá félaginu en það hagnaðist um 223,9 milljónir króna á sama tíma í fyrra. Tapið má rekja til óhagstæðrar gengisþróunar og aukins fjármagnskostnaðar.

Í tilkynningu frá félaginu til Kauphallar Íslands kemur fram að rekstrartekjur samstæðu Olíufélagsins hafi numið rúmum 11,7 milljörðum króna samanborið við rúmlega 9,9 milljarða krónur á sama tíma í fyrra. Hreinar rekstrartekjur námu tæplega 2,9 milljörðum króna og er það 381 milljón krónu meira en fyrir ári.

Rekstrargjöld án afskrifta og leigugjalda nema rúmum 1,7 milljörðum króna og er það 111 milljóna króna hækkun frá síðasta ári. Þá voru fjármagnsliðir neikvæðir um 894 milljónir króna á tímabilinu en þeir voru jákvæðir um 2 milljónir króna í fyrra.

Þá kemur fram í tilkynningunni að bókfært verð eigna félagsins hafi numið tæpum 24 milljörðum króna í lok júní en það var rúmar 11,6 milljarðar króna í fyrra. Eigið fé Olíufélagsins nam í júnílok rúmum 6,3 milljörðum króna samanborið við tæplega 3,7 milljarða í lok júní í fyrra.

Í hálfs árs uppgjöri Olíufélagsins kemur fram að rekstur félagsins hafi verið í samræmi við rekstraráætlanir á fyrri helmingi ársins að undanskildum áhrifum sem þróun gengismála hafi haft í för með sér. Gert er ráð fyrir að afkoma félagsins verði í samræmi við áætlanir á seinni hluta ársins ef ekki komi til neinar meiriháttar breytingar á ytri aðstæðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×