Viðskipti innlent

Milljarður í hagnað hjá HS

Hitaveita Suðurnesja.
Hitaveita Suðurnesja.

Hitaveita Suðurnesja (HS) skilaði tæplega 1,1 milljarðs krónu hagnaði á fyrri helmingi ársins. Þetta er 357 milljónum krónum meiri hagnaður en á sama tíma í fyrra þegar hann nam 709 milljónum króna.

Í tilkynningu til Kauphallar Íslands kemur fram að rekstrartekjur hafi numi tæpum 2,7 milljörðum króna en þær námu tæpum 2,3 milljörðum króna á sama tíma í fyrra. Hækkunin nemur 16 prósentum og stafar aðallega af aukningu í raforkusölu um 306 milljónir króna.

Þá námu rekstrargjöld án afskrifta rúmum 1,2 milljónum króna sem er 18 milljónum króna hækkun á milli ára. Raforkukaup og raforkuflutningur hækka um 50 milljónir króna aðrir rekstrarliðir breytast óverulega, að því er segir í tilkynningunni.

Hrein fjármagnsgjöld voru tæp 1,5 milljarðar króna á tímabilinu samanborið við 44 milljónir króna árið áður. Veiking íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum leiðir til tæplega 1,6 milljarðs króna gengistaps en á fyrri hluta síðasta árs en þá nam gengistapið 42 milljónum krónum. Vaxtagjöld ríflega þrefaldast frá fyrra ári, einkum vegna fjármögnunar byggingar Reykjanesvirkjunar en þær námu 363 milljónum króna.

Færður er til tekna í rekstrarreikningi hitaveitunnar tekjuskattur að fjárhæð rúmlega 1,5 milljarðar króna. Annars vegar er um að ræða tekjufærðan tekjuskatt að fjárhæð 99 milljónir króna vegna rekstrartaps á fyrri árshelmingi en hins vegar er tekjufærður rúmlega 1,4 milljarðar króna tekjuskattur vegna tímabundinna mismuna á bókfærðu verði einstakra eigna og skulda félagsins annars vegar og skattalegu verði þeirra hins vegar, að því er segir í tilkynningunni.

Eignir voru bókfærðar á tæplega 29,4 milljarða krónur og hækkuðu þær um rúma 4,7 milljarða krónur frá ársbyrjun, aðallega vegna fjárfestinga félagsins í Reykjanesvirkjun, sem tekin var í notkun í maí.

Skuldir hitaveitunnar nema 10,8 milljörðum króna samkvæmt efnahagsreikningi, þar af eru skammtímaskuldir rúmir 2,7 milljarðar króna og hafa þær hækkað um 5,4 milljarða krónur á milli ára. Hækkunin skýrist af lántökum félagsins vegna Reykjanesvirkjunar.

Þá var eigið fé hitaveitunnar 14,4 milljarðar króna í lok júní.

Brottför varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli í lok september mun hafa áhrif á starfsemi félagsins en Varnarliðið hefur verið stærsti einstaki kaupandi heits vatns og raforku af félaginu, að því er segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×