Innlent

Þjóðleikhúsið og Icelandair undirrita samstarfssamning

Þjóðleikhúsið og Icelandair undirrituðu í dag samstarfssamning en arkmið hans er að auðvelda Þjóðleikhúsinu að fara til útlanda með íslenska leiklist segir í tilkynningu frá Þjóðleikhúsinu. Leikför með Eldhús eftir máli - Hversdagslegar hryllingssögur til Konunglega leikhússins í Kaupmannahöfn markar upphaf samstarfsins. Ráðgerðar eru tvær sýningar dagana 30. og 31. maí. Eldhús eftir máli - Hversdagslegar hryllingssögur er fyrsta sýningin sem Þjóðleikhúsið sýnir í þessu fornfræga leikhúsi í höfuðstað Danmerkur en verkið verður sett upp í Stærekassen.

Eldhús eftir máli eða Et skræddersyet køkken - Gysere fra hverdagen verður flutt á íslensku en danskri þýðingu verður varpað upp á skjá. Það er Erik Skyum Nielsen sem þýðir verkið en hann hefur meðal annars þýtt átján smásögur eftir Svövu Jakobsdóttur á dönsku sem gefnar voru út undir samheitinu "Kvinde med spejl". Fjárstuðningur til ferðarinnar kemur að mestu leyti frá Danmörku, frá PFA Pension Fund.

Samstarfssamningurinn við Icelandair auðveldar einnig Þjóðleikhúsinu að þiggja boð Konunglega leikhússins. Samningurinn gildir í eitt ár, með möguleika á endurnýjun. Það voru þau Tinna Gunnlaugsdóttir þjóðleikhússtjóri og Jón Karl Ólafsson, forstjóri Icelandair sem undirrituðu samninginn í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×