Innlent

Íslandsbanki greiði þrotabúi 4,5 milljónir

Höfuðstöðvar Íslandsbanka.
Höfuðstöðvar Íslandsbanka. MYND/Stefán

Íslandsbanki verður að greiða þrotabúi Kaldabergs ehf. hálfa fimmtu milljón króna auk dráttarvaxta og 400 þúsund króna í málkostnað. Upphæðina fékk Íslandsbanki greidda upp í skuldir skömmu áður en fyrirtækið varð gjaldþrota og þær þóttu brjóta gegn lögum um jafnræði lánadrottna.

Dómari við Héraðsdóm Reykjaness komst að þeirri niðurstöðu að greiðslurnar hefðu verið óvenjulegar. Hann sagði ekkert hafa komið fram sem gæfi til kynna að eðlilega hefði verið staðið að greiðslunum þegar gert var upp við Íslandsbanka að fullu en ekki aðra lánadrottna Kaldabergs. Dómarinn samþykkti því kröfur þrotabúsins að fullu utan þess að dráttarvaxtaútreikningur miðast við málshöfðun í málinu en ekki greiðslu inn á reikninga Íslandsbanka.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×