Erlent

Sögð hafa greitt fyrir fangaflutningum

MYND/Stöð 2

Nokkur Evrópulönd eru sökuð um að hafa aðstoðað við leynilega fangaflutninga bandarísku leyniþjónustunnar CIA í nýrri skýrslu Evrópuráðsins. Fangaflutningarnir komust í hámæli á síðasta ári þegar greint var frá því að CIA hefði flogið með grunaða hryðjuverkamenn til landa þar sem pyntingar væru leyfilegar.

Nefnd undir forystu svissneska þingmannsins Dicks Marty hefur rannsakað málið á vegum Evrópuráðsins í sjö mánuði og segir á fréttavef BBC að í skýrslu hennar komi fram að fjórtán Evrópulönd, þar á meðal Bretland, Spánn, Þýskaland, Kýpur og Tyrkland, hafi gert fangaflutningana mögulega á einn eða annan hátt. Þá segir rannsóknarnefndin sterkar vísbendingar um að leynifangelsi hafi verið starfrækt í Póllandi og Rúmeníu en yfirvöld þar hafa staðfastlega neitað því.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×